Píratakóðinn er sameiginleg gildayfirlýsing Pírataflokka um allan heim.
Í íslenskri þýðingu hljómar hann svona:
Píratar eru friðelskandi, sjálfstæðir, sjálfráðir og hlýða ekki í blindni. Þeir vilja að einstaklingar hafi vald yfir sínum persónugögnum og njóti skoðanafrelsis. Píratar axla þá ábyrgð sem fylgir frelsi.
Píratar vernda einkalíf. Þeir berjast gegn vaxandi eftirlitsgeggjun ríkja og hagkerfa því að slíkt hamlar frelsi og þróun hjá einstaklingum. Frjálst og lýðræðislegt samfélag þrífst ekki ef friðhelgi einkalífs er ekki virt.
Píratar eru skapandi, forvitnir og fylgja ekki í auðsveipni stöðnuðu kerfi. Þeir skora kerfi á hólm, leita að veikleikum og finna leiðir til að lagfæra þá. Píratar læra af mistökum sínum.
Píratar standa við orð sín. Samstaða er mikilvæg þegar ná þarf fram sameiginlegum markmiðum. Píratar vinna gegn samfélagi sem anar áfram í blindni og bregðast við þegar þörf er á siðferðislegu hugrekki.
Píratar eru friðsamir. Þeir hafna því dauðarefsingu og eyðileggingu á umhverfi okkar. Píratar standa fyrir sjálfbærni náttúru og auðlinda. Við viðurkennum ekki einkaleyfi á lífi.
Aðgengi að upplýsingum, menntun, þekkingu og vísindaniðurstöðum verður að vera ótakmarkað. Píratar styðja frjálsa menningu og frjálsan hugbúnað.
Píratar virða mannhelgi. Þeir leggja sig fram við að koma á samfélagi þar sem samstaða ríkir og þar sem hinir sterku vernda og aðstoða þá sem veikari eru. Píratar standa fyrir stjórnmálamenningu sem er hlutlæg og réttlát.
Píratar eru hluti af alþjóðlegri hreyfingu. Þeir nýta sér þau tækifæri sem Internetið býður upp á og geta þannig hugsað og unnið án landamæra.